Undir berum himni – Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Guðmundur Ármann Sigurjónsson opnar sýninguna Undir berum himni, þar sem til sýnis verða um 30 vatnslitamyndir. Sýningin opnar föstudaginn 7. febrúar kl. 14:00 og verður opin laugardag og sunnudag. Þá verður einnig opið miðvikudaginn 11.febrúar kl. 14:00–17:00 og síðan föstudag, laugardag og sunnudaginn 13.–15. febrúar á sama tíma.
Á sýningunni verða um 30 vatnslitamyndir, málaðar á árunum 2019 til 2024. Flest myndefnin eru sótt í
nærumhverfið hér við Eyjafjörðinn. Allar myndirnar eru málaðar úti í náttúrunni og ýmist var þeim lokið á staðnum eða í sumum tilfellum unnið að smáatriðum heima á vinnustofunni – þá vegna úrkomu eða að vindur gerðist æði ágengur svo erfitt var að hemja spjald og trönur. Var þá tími til kominn að snúa þangað sem ekki blésu vindar né rigndi.
Allt eru þetta fíguratífar vatnslitamyndir og ekki ætlaðar sem frumdrög að stærri olíumálverkum, heldur sem fullburða myndverk. Þannig er enn dvalist með annan fótinn í veröld figúratífs myndmáls. Annars vegar er málað úti með vatni, bindiefni og litadufti á vatnslitaörk. Það er einstök upplifun sem býður upp á tæra sýn á náttúruna, litina, formin og birtuna. Hins vegar unnið að myndlist á vinnustofunni þar sem eru máluð abstrakt málverk með olíu, teikningum og grafík. Þar er horft inn á við í einhvers konar minni og lögmáli hins tvívíða flatar.
Er mikill munur á þessari ólíku nálgun við myndefnið? Hvar liggja mörkin á milli þess sem býr í náttúrunni og þess sem býr hið innra með okkur? Það er efni í aðra hugleiðingu og e.t.v. aðra sýningu.