Tilfallandi
Listasumar ´22 í Deiglunni:
Álfheiður Þórhallsdóttir opnar myndlistarsýningu sína föstudaginn 15. júlí kl 20.00
Álfheiður Þórhallsdóttir (f. 1994) og er sjálfstætt starfandi textíllistamaður, búsett á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi af textílsviði listnámsbrautar VMA árið 2014 og BA í textílhönnun frá Arts University Bournemouth árið 2021.
Sýning hennar ‘Tilfallandi’ er hennar fyrsta ‘solo’ sýning og verða til sýnis hennar allra nýjustu verk, sem og brot af því sem hún gerði fyrir lokaverkefni sitt í AUB, vorið 2021.
Lokaárið hennar í AUB var litað af útgöngubanni, sóttkví og einangrun. Álfheiður sótti sér huggun í náttúruna og víðáttuna á þeim tíma sem þar af leiðandi varð hennar helsti innblástur í hönnun og listsköpun. Hún rýnir í liti og form í nærumhverfi sínu, sem rata svo inní verk hennar. Hún vinnur mest með tufttækni (e. tufting), en nýtir sér einnig aðra miðla sem og silkiþrykk og bútasaum til listsköpunar. Sjálfbærni er henni ofarlega í huga við listsköpun og mörg hennar verk gerð úr endurnýttum textílafgöngum.
Sýningaropnun verður föstudaginn 15.júlí kl 20 og svo verður opið frá kl 12-17 laugardag og sunnudag.