Bjartsýnishornasafnið tapað fundið
Íris Eggertsdóttir opnar myndlistarsýningu sína í Deiglunni laugardaginn 17. ágúst kl. 16.
Opnunartímar: 17.ágúst kl 16-19 og 18.ágúst 13-16.
Bjartsýnishornasafnið (Tapað fundið)
Bjartsýnishorn eru sýnishorn af liðnum og óliðnum augnablikum sem fara á besta veg. Þau eru sýnishorn af því besta í sjálfum þér. Þau eru trúin á sig sjálfan og sannfæring um möguleikan á því að allt fari á besta veg. Sýnishornin eru í raun sönnun þess sem býr innra með okkur öllum. Möguleikar, lausnir, dagdraumar, óskir, vonir, óbilandi trú, gleði, kærleikur, og ást. Ef að þessi sýnishorn væru bíómynd þá væru þau dans og söngvamynd með hamingjusömum endi og miklum hlátri. Þau eru líka sú tilfinning þegar þú veist að þú ert á réttri leið og þegar þú hlærð upphátt þegar eitthvað smellur saman allt í einu. Þegar þú ert í bjartsýnis hringiðunni og finnst þú aldrei vera þreytt. Bjartsýnishornin eru unninn í ólíka miðla og úr margskonar efnivið. Þau eru skúlpturar unnir úr textíl og gipsi sem oft eru settir undir glerverndarhjúp líkt og á náttúrugripasafni eins og um dýrgrip sé að ræða. Þau eru hekluð saman eins og hringiða, spor lífsins, eitt og eitt skref lykkjað saman. Þau eru einnig málverk á striga, eiginleg portreit eða smámyndir eins konar minning um sýnishorn af tilfinningu, draumi, hugmynd eða viðburði. Sýnishornin sjálf eru síðan óræð form sem hafa þó þann brag á sér að þau séu lifandi verur eða hafi lifandi vídd. Í málverkunum er heklið ennþá til staðar með smáum lykkjum sem eru teiknaðar inn í verkin. Innblásturinn að verkunum er bæði persónulegur og almennur. Á erfiðum tímum er áríðandi og nærandi að minna sig á það sem maður er þakklátur fyrir. Setja það jákvæða og batan í forgrunn. Finna aftur það sem maður hélt að væri tapað. Tilfinningar sem fylgja atburðum sem tengjast ást, kærleika, gleði, von og trú. Það sem við gefum gaum og athygli það vex og stækkar. Því er það okkar að velja hvað við ætlum að næra og hverju við gefum gaum. Þá getur skipt öllu að eiga bjartsýnishorn til þess að veita athygli og gleðjast yfir.
Listferill og menntun.
Íris Eggertsdóttir útskrifaðist með B.A. próf í Fine art Frá Byam Shaw School of art/Listaháskóli Íslands árið 2003 og hélt sína fyrstu einkasýningu „Skyn“ sama ár í gallerý Nema hvað í Reykjavík. Verkin voru skúlptúrar unnir úr silki flaueli og feldi, fylltir með grjónum. Skúlptúrana mátti snerta, halda á og faðma því þeir voru í formum sem pössuðu milli fingra, í lófa og í hálsakot. Á útskriftarsýningu LHÍ 2003 var hún með röð verka undir heitinu „Aðlögun“. Þau voru 3 húðlituð akrílmálverk í þrívídd úr striga, plastboltum og flaueli. Verkin þrjú voru 100 cm á breidd og 150 cm á hæð og sett upp eins og altaristafla. Öll verkin mátti snerta, faðma, vefja utan um sig og setja hendur inn í. Sama ár eftir útskrift úr LHÍ hélt Íris einkasýningu í Fisherhúsinu Keflavík 2003 sem hét „Með rauðakúlu á maganu“ sem voru þrívíð textíl og akríl málverk um sköpun og breytingar. Ári seinna 2004 var það einkasýningin „Tengsl og togstreita“ í Kæliklefanum Keflavík, það voru þrívíð textíl og akríl málverk um andstæðu og samhverfur. Eftir nokkurt hlé hélt Íris einkasýningu „Höfuðlausnir“ í KVK Rykjavík 2007. Þar var um að ræða skúlptúra úr ull sem hægt var að klæðast. „The Maskbook project“ var einkasýning í Líber Reykjavík 2013. Heklaðar grímur innblásnar af statusum á facebook frá handahófs völdu fólki ljósmyndaðar á módelum. „Bjartsýnishornasafnið“ samsýning í Kaktus Akureyri 2019 Heklaðir skúlptúrar og fyrsta sýningin í sýningaröðinni „Bjartsýnishornasafnið“. „Bjartsýnishornasafnið“ einkasýning í Auglit Akureyri 2021 fleiri bjartsýnishorn, heklaðir skúlptúrar og portrett í akríl og bleki. Auk þess að gera myndlist þá sem hér er upptalin hefur Írisunnið búninga og leikmyndir í ótal leikrit og fyrir sjónvarp ásamt því að vinna við kvikmyndir.
Íris Eggertsdóttir
Myndlistarmaður og safnstjóri Bjartsýnishornasafnins