Lita-Leita-Leika
Málverkasýning Begu og Linda opnar í Deiglunni laugardaginn 5. ágúst kl. 13.00
Sýningin stendur helgina 5. – 6. ágúst og er opin 13 – 17 báða dagana.
Þettta hafa þau að segja um sýninguna og sig:
Bega (Berglind Anna Einarsdóttir): ég er expressionísk myndlistakona frá Reykjavík og er búin að vera með aðal fókusinn á sjálfsmyndinni.
Ég er útskrifuð úr listnámi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hef núna lokið fyrra af tveim árum í fornámi að BA á Listmálaradeild hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík.
Ég nota listina mikið sem leið að sjálfsvinnu, til dæmis til að vinna úr áföllum fortíðar og “body dismorphia’ og gremju minni á fordómum, óörygginu og titrandi hræðslunni og reiðinni í fólki sem að hefur myndast af háum væntingum sem eru í samfélaginu.
„Sjálfs Elska“ sýningin mín er safn af sjálfvirkum teikningum og málverkum sem ég geri með það í huga að nota einfaldar hugsunarlausar aðferðir eins og að notast við bara einlitann trélit og frjálslegar blandaðar aðferðir á pappír og striga án þess að hafa þörf á að ná neinskonar raunsæi, frekar að fagna barnalegs naívisma. Ég teikna hvernig mismunandi útgáfur sjálfsins líður eftir minningunni og hafa þörf á að breyta sér eftir mismunandi aðstæðum og upplifunum. Þar á meðal finnast hyper sjálfsörugga alter egoið, ofur viðkvæma barnið í manni sem er með þörf til að taka sem allra minnst pláss, yfirvegaði rólindi umönnunaraðilinn og allt þar á milli. Allar útgáfurnar búa saman og þurfa á hvorri annari að halda og til þess að komast af í núinu sem núverandi sjálfið.
Orðið „sjálfs-elska“ hefur neikvæða merkingu í íslensku en er jákvætt í beinni þýðingunni yfir á Ensku “self-love eða „sjálfsást“ og vill frekar vera þýtt og notað sem „eigingirni“.
Lindi (Ísak Lindi Aðalgeirsson): ég er abstract expresionisti og legg áherslu á að koma fram tilfinningum og upplifunum í málverkum mínum. Ég stundaði nám við Liceo Artistico Aldo Passoni í Torino á Ítalíu, á listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri og er nú að byrja annað árið í diplómunámi á listmálarabraut í Myndlistaskólanum í Reykjavík.
Ég sýni safn verka sem ég kalla Fuglaskvaldur ásamt öðrum málverkum sem ég hef verið að vinna að í vetur. Málverkin eru að miklu leyti innblásin af ljóðinu „Hope“ is the thing with feathers eftir Emily Dickinson og íslenskum fuglum og söng þeirra. Ég nota fuglamyndirnar til að koma mér úr hausnum á mér þegar ég er fastur í öðrum málverkum og þarf að leyfa mér að sleppa hendinni.
Lita-leita-leika er sýning sem okkur datt í hug að halda saman þegar við áttuðum okkur á sameiginlegum áhuga á litum og áberandi næmri litaskynjun sem við deilum bæði og þörf okkar fyrir kæruleysislegum aðferðum þegar maður fær að leika sér með sínum fjölbreyttu aðferðum. Þó við séum ólík í stíl þá sameinar hugræna ferlið okkur.