Lífið í litum – Handverkssýning
Föstudaginn 2. ágúst kl. 14 opnar sýningin „Lífið í litum“ á handverki Nedelju Marijan í Deiglunni. Sýningin verður opin alla daga til 11. ágúst kl. 14 – 17. Verið öll hjartanlega velkomin.
Um sýninguna segir Nena, eins og hún er oft kölluð: „Ég heiti Nedelja Marijan og flutti til Íslands fyrir 16 árum. Sem ung kona byrjaði ég að hekla teppi á rúmin og einnig á gólfið fyrir veturinn og hafði gaman af. Þetta þróaðist síðan í eitt af mínum áhugamálum sem hafði líka róandi áhrif. Ég byrjaði fyrst að sauma út teppin á Íslandi, notaði garnafganga og blandaði þeim saman. Ég byrja alltaf að hekla sterkan grunn, það skiptir ekki máli hvernig litasamsetningin er, því þegar grunnurinn er til þá ég byrja að sauma út blóm. Ég nota aldrei nein munstur heldur geri allt upp úr hausnum og veit aldrei fyrirfram hvernig verkið mun líta út, sem gerir hvert verk einstakt og engin tvö eru eins.
Kæru gestir, Ísland hefur gefið mér mörg tækifæri, mig langar að deila handverkum mínum með öllum landsmönnum. Hvert verk er einstakt og hefur ásamt ljóðum og bókum sem ég skrifa verið einskonar meðferð fyrir mig i baráttu minni við krabbamein og önnur veikindi. „
Sýningin er styrkt af Gilfélaginu.