Aðalfundur Gilfélagsins 12. maí 2024
Skýrsla stjórnar Gilfélagsins
Um starfsemi félagsins á árinu 2023/24, milli aðalfunda
Lögð fyrir aðalfund 12. Maí 2024
Gilfélagið er nú að ljúka 33. starfsári sínu.
Við rekum Deigluna og gestavinnustofu hér í þessu húsnæði og höfum gert frá upphafi félagsins. Gilfélagið leitast við að styðja við og styrkja eftir megni grasrótarstarf menningarinnar, vaxtarsprotana sem eiga lítið undir sér og stunda skapand starf af ástríðu. Við erum opið félag án aðgreiningar. Við erum ekki fullkomin en gerum okkar besta eftir þeim stakki sem okkur er sniðinn. Við erum félag sjálfboðaliða og okkar styrkur ræðst verulega af óeigingjörnu starfi félaganna. Við höfum getað boðið húsnæðið undir viðburði á sérlega hagstæðum kjörum og stundum gjaldfrjálst ef þannig hefur staðið á.
30 opnir viðburðir voru skráðir í Deiglunni frá maí ´23 – maí ´24. Það er nokkru færra en árið á undan.
Það féllu niður fjórir mánuðir í gestavinnustofunni en eitt þeirra tímabila var fyllt af heimamanni (íslenskum listamanni). Einn myndlistamaður hoppaði inn í tvöfalt bil og var í tvo mánuði síðastliðið haust. Það er bagalegt þegr þetta gerist en það tekst yfirleitt að bjarga því fyrir horn með því að auglýsa aftur eða hafa samband við „vini gestavinnustofunnar“ sem stundum geta brugðist við með litlum fyrirvara. Í ár hafa til þessa engir listamenn boðað forföll.
Varðandi húsnæðið er þó ánægjulegt að það hefur verið aukin notkun af öðru tagi. Þannig hafa verið haldin stök námskeið: vatnslitun 1 námskeið og grafík 2 námskeið. Auk þess var salsanámskeiði frá Salsaskóla Alþýðunnar einu sinni í viku á vor og haustönn 2023 undir handleiðslu Önnu Richardsdóttur og Wofgangs Frosta.
Síðastliðið haust hóf Samlagið Sköpunarverkstæði starfsemi sína. Þær Karólína Baldvinsdóttir og Freyja Reynisdóttir komu upp myndlistarverkstæði fyrir börn sem hefur starfað í allan vetur. Kennsla fór fram tvö síðdegi á viku á haustönn og þrjú síðdegi í viku eftir áramót. Það er lofsvert framtak sem hefur aukið notkun á húsnæðinu umtalsvert. Karólína hefur borið hitann og þungann af starfinu og segir nánar frá því hér á eftir.
Einnig er vert að geta jógatíma á vegum Ágústu Jenný Forberg í hádeginu á fimmtudögum sem hófust í apríl síðastliðnum og verða að minnsta kosti út maí og lengur ef næg þáttaka fæst. Þar geta gilfélagar stundað jóga á hálfum prís.
Áfram höfum við verið samstarfsaðilar við stærri hátíðir og bjóðum þá húsnæðið leigulaust á A! Gjörningahátíð og Boreal dansvídeóhátíð, auk þess að vera samstarfsaðili Listasumars. Þar sjáum við um framkvæmd og stýrum viðburðum gegn dálitlum styrk frá bænum. Það var haldin þriggja daga smiðja og Karnival í gilinu við lok listasumars og ætlum við að endurtaka leikinn í ár.
Gestalistamenn okkar hafa tekið þátt í Þriðjudagsfyrirlestrunum sem haldnir eru í Listasafninu yfir vetrartímann í samstarfi við Listasafnið, MA og VMA.
Það eru félagasýningar skipulagðar af Gilfélaginu, Salon des refuses var fyrir ári, og handverksmarkaðurinn hefur verið árviss, við erum að hugsa um að flýta honum eitthvað í ár, vegna mikillar samkeppni á jólahandverksmarkaiðnum. Þannig vinnum við að verkefnum sjálf og í samstarfi við aðra.
Einungis tvö Tilraunakvöld í listum voru haldin á árinu. Sótt var um styrk til bæjarins fyrir utanum hald, sem fékkst ekki. Það er bagalegt því hugmyndin var að kaupa auglýsingar fyrir þessi kvöld og gera þau stærri og sýnilegri.
Það hefur einnig gerst að við fellum niður leigu af sýningum ungs listafólks eða listafólks í viðkvæmri stöðu. Það er alltaf álita mál hversu oft við getum leyft okkur að bjóða salinn án endurgjalds, en það er á hinn bóginn styrkur að geta það og mér finnst sem formanni að við eigum að gera það oft.
Gilfélagið hefur fengið smærri styrki frá Akureyrarbæ á árinu. 175.000 fengust til að halda listasmiðju í tengslum við Barnamenningarhátíð og 450.000 til að halda smiðju og lokaviðburð Listasumas 2023.
Samlagið sköpunarverkstæði varð betur ágengt í styrkumsóknum og mun Karólína gera grein fyrir því á eftir.
Við erum opin fyrir umsóknum og flokkum ekki umsækjandur, allir hafa sömu möguleika á að sækja um Deigluna fyrir menningarviðburði.
Við stundum húsvörslu og smálegt viðhald, sem felst í að yfirfara og lagfæra Deigluna milli sýninga og viðburði ýmiskonar er einnig á höndum stjórnar ásamt því að endurnýja tæki og lagfæra ýmislegt í gestavinnustofunni. Það er málunarvinna á dagskránni hjá okkur í sal og salernum. Gestavinnustofa var tekin í gegn síðastliðið haust og settar gifsplötur á vegginn milli vinnustofu og salar, til hljóðeinangrunnar. Við það nutum við góðrar aðstoðar nokkurra félaga sem eiga þakkir skildar fyrir hjálpina. Það liggur fyrir að mála eina umferð í viðbót og draga rafmagn í dósir á þeim vegg í Gestavinnustofu og við bíðum eftir forfölluðum gestalistamanni til að klára það.
Í stjórn félagsins sitja: Aðalsteinn Þórsson formaður, Karólína Baldvinsdóttir ritari, Ásta Hrönn Harðardóttir gjaldkeri, og meðstjórnendur Bryndís Símonardóttir og Anna Richardsdóttir. Varamenn eru Arna G. Valsdóttir, Joris Rademaker og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.
Ásta Hrönn baðst undan skyldum sem gjaldkeri síðsumars 2023. Bryndís Símonardóttir tók þá stöðu að sér og hefur verið gjaldkeri síðan, með bókara sér við hlið og eru þær að vinna í því að koma bókhaldi félagsinns í skikkanlegt horf. Það hefur verið lausabragur á því lengi t.d. vegna óreglu á pappírsviðskiptum á þessari stafrænu öld. Engu að síður er óhætt að fullyrða að ekki hefur verið óráðsía í fjármálum félagsinns eins og bankareikningur þess ber vitni. Ekki hefur enn tekist að taka saman ársreikning á viðunandi hátt. Af þeim sökum er fyrirhugaður auka aðalfundur í haust þar sem ársreikningur verður borin upp til samþykkis.
Við leitum að nýjum gjaldkera og það væri mikið ánægju efni ef einhver hér væri reiðubúin að taka það starf að sér næstu tvö árin.
Dagrún Matthíasdóttir, Fríða Karlsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Þórarinn Örn Egilsson voru kjörin í skapandi framkvæmdastjórn. Skapandi framkvæmdastjórnin hefu verið stjórn félagsins innan handar með ýmislegt á árinu og verður spennandi verkefni að þróa starfsemi hennar enn frekar.
Í úthlutunarnefnd gestavinnustofu sitja, Sóley Björk Stefánsdóttir, Ólafur Sveinsson og Hólmfríður Kristín Karlsdóttir. Við viljum gjarnan að nefndin sitji áfram og Fríða veiti henni forstöðu áfram sem fulltrúi stjórnar.
Stjórnin hefur frá síðasta aðalfundi haldið 15 stjórnarfundi.
Félagatalið stendur í 225 félaga á skrá þar af 156 virka. Einungs fáir taka þátt í starfi fyrir félagið og er það stöðug áskorun að stækka þann hóp.
Það er skoðun formanns að sjálfboðavinna sé mikilvæg og eins að halda kostnaði við reksturinn í lágmarki, sér í lagi til þess að geta boðið Deigluna á góðum kjörum og þannig viðhaldið markmiðinu að þjóna sem flestum óháð efnahgslegri stöðu. Engu að síður heldur áfram viðleitni okkar að leita leiða til að fá launaðan starfsmann til að sinna daglegum rekstri og sérverkefnum sem eru ærin. Án þess þó að íþyngja rekstri félagsins nema sem allra minnst.
Við viljum standa vörð um hugmyndina sem var mótuð 1991 um Listagilið sem mikilvægt kennimark í listasamfélaginu á Akureyri. Ekki síst að stuðla markvisst að eflingu grasrótarstarfs í listum og menningu. Starfs sem síður finnur sér farveg innann stofnananna.
Við munum áfram vera í samvinnu við: Barnamenningarhátíð, Boreal dansvídeóhátíð, Listasumar, Listasafnið á Akureyri í samvinnu um fyrirlestraröð. Listasmiðjur í samvinnu við Myndlistafélagið, Kaktus og A! Gjörningahátíð. Við skoðum hugmyndir um samstarf jákvæðum augum og skoðum hugmyndir þar um með opnum huga.
Samningar við Akureyrarbæ
Vid erum samningslaus við bæinn vegna húsnæðisins síðan 1. janúar 2023.
Samkvæmt þeim samningi borgar Gilfélagið mánaðarlega 35.000 kr til bæjarins mánaðarlega.
14. Desember 2022 átti stjórn Gilfélagsins fund með Þórgný Dýrfjörð forstöðumanni atvinnu- og menningarmála og Sumarliða Helgasyni sviðsstjóra þjónustu- og skipulagssviðs Akureyrarbæjar um framtíðar samning með breyttum áherslum og fyrirkomulagi. Þar lögðum við til aukið námskeiðahald einkum fyrir börn og opið vinnustofurými til leigu til styttri tíma fyrir skapandi einstaklinga svokölluðum, gegn því að bærinn felli niður leigu af húsnæðinu. Gilfélagið standi hinnsvegar straum af kostnaði sem hlytist af húsnæðinu öðrum en meiriháttar viðhaldi. Fundurinn var einkar jákvæður.
Ekkert svar hefur borist.
Það kvartar enginn undan lágri leigu en óöryggið er algert og fullkomlega óljóst með næsta dag, ábyrgð og skildur í báðar áttir.
Hvað langar okkur?
Tónleikaröð í anda Heitra fimmtudaga?
Fleiri helgarnámskeið fyrir fullorðna?
Eina sýningarstjórnaða sýningu á ári með vel metnum listamanni sem ynni með rýmið?
Sjálfboðavinna í menningarmálum er mikilvægt samfélagslegt framlag sem við í Gilfélaginu leggjum fram og má segja að það sé eitt einkenna félagsins sem grasrótarfélags.
Vinna stjórnarinnar, utan við fundi, felst meðal annars í aðstoð við gestalistamenn við ýmislegt t.d. undirbúning á sýningum þeirra, gera auglýsingar og kynningar á heimasíðu okkar um viðburði þeirra. Þá er mikil vinna við að halda utan um gestavinnustofuna, Auglýsingar fyrir umsóknir, vinna við að halda utan um úthlutun, sjálf úthlutunin sem er í höndum gestavinnustofunefndarinnar.
Megi næsta starfsár verða okkur enn gjöfulla í menningarstarfinu og listrænni upplifun.
Með þökk og virðingu.
Fyrir hönd stjórnar.
Aðalsteinn Þórsson
12. maí 2024.