Tilefni – málverk eftir Ragnar Hólm
Laugardaginn 19. nóvember kl. 14 opnar Ragnar Hólm málverkasýningu í Deiglunni.
Sýningin Tilefni teygir sig yfir tvö sýningarrými, Deigluna og Mjólkur-búðina, sem eru hvort sínum megin götunnar. Tilefnið er 60 ára afmæli listamannsins. Þetta er 21. einkasýning Ragnars sem einnig hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
Á sýningunni eru eingöngu ný olíumálverk í abstrakt expressionískum stíl með fígúratívu ívafi. „Ég er alltaf að leita að einhverjum sprengikrafti, einhverju hófstilltu brjálæði, æpandi þögn, sem mér finnst ná utan um þessa undarlegu tíma sem við lifum. Áreiti nútímans og ólgan í heimsmálunum gera mann tættan og ráðvilltan. Ég djöflast með litina í leit að jafnvægi og samhljómi á myndfletinum. Stundum gengur mikið á en að lokum fellur allt í ljúfa löð. Þannig einhvern veginn er listsköpun mín þessa dagana. Milt landslagið í akvarellunum fær hvíld en olíumálverkin eru líklega villtari en áður, frjálslegri og óheftari,“ segir Ragnar Hólm um málverkin sem hann hengir upp í Deiglunni og Mjólkurbúðinni á Akureyri.
Ragnar Hólm Ragnarsson er fæddur á Akureyri 19. nóvember 1962. Síðasta rúma áratuginn hefur hann helgað allan sinn frítíma myndlist og sótt námskeið hjá þekktu myndlistarfólki hér heima og erlendis. Vatnslitamyndir Ragnars hafa verið valdar á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrir-ferðarmeira í list hans.
Sýningin er opin laugardaginn 19. nóvember og sunnudaginn 20. desember frá kl. 14-17 báða dagana.