Ljósið kemur – Myndlistasýning
Ljósið kemur í Deigluna
Laugardaginn 11. desember kl. 14 opnar Ragnar Hólm Ragnarsson málverkasýninguna Ljósið kemur í Deiglunni í Listagilinu á Akureyri. Þetta er 20. einkasýning Ragnars sem einnig hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
„Ég hef verið að glíma við málverk í þokkalegri stærð undanfarið og einhvern veginn sýnist mér bjartara yfir þessum abstrakt expressjónisma en oft áður. Þannig læðist ljósið yfir strigann,“ segir Ragnar Hólm og bætir við að titill sýningarinnar vísi í gamla, góða húsganginn Ljósið kemur langt og mjótt. „Það fallega stef tengist æskuminningum um jólahátíðina og biðinni eftir að sólin fari að hækka aftur á lofti. Skammdegið getur verið þrúgandi en handan við hornið er alltaf betri tíð með blóm í haga. Ég vona að málverkin endurspegli það, svona í felstum tilfellum.“
Ragnar Hólm Ragnarsson er fæddur á Akureyri 1962 og starfar við markaðsmál fyrir sveitarfélagið. Síðasta rúma áratuginn hefur hann helgað allan sinn frítíma myndlist og meðal annars notið handleiðslu myndlistarmannsins Guðmundar Ármann og einnig sótt námskeið hjá þekktu myndlistarfólki víða um Evrópu. Vatnslitamyndir Ragnars hafa verið valdar á fjölda samsýninga evrópskra vatnslitamálara. Síðustu árin hefur olíumálverkið orðið æ fyrirferðarmeira í list hans.
Sýningin í Deiglunni er opin laugardaginn 11. desember og sunnudaginn 12. desember frá kl. 14-17 báða dagana.