Martraðamaðka: Sögur af Móaskottum
Laugardaginn 30. janúar kl. 16 – 20
Sunnudaginn 31. janúar kl. 14 – 17
Ágústa Björnsdóttir, gestalistamaður Gilfélagsins í janúar sýnir afrakstur dvalar sinnar með sýningu í Deiglunni, kölluð Martraðamaðka: Sögur af Móaskottum. Verið öll hjartanlega velkomin.
Í Deiglunni er grímuskylda og fjöldatakmarkanir virtar, sýnum hvort öðru tillitsemi og gefum gott pláss.
Ágústa Björnsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún hóf myndlistarnám sitt í Myndlistarskóla Reykjavíkur árið 2014 þar sem hún lagði stund á sjónlist. Hún útskrifaðist þaðan með diplómagráðu árið 2015. Seinna sama ár tók myndlistardeild Listaháskóla Íslands við. Árið 2017 lagði hún leið sína til Tallinn þar sem hún sat eina önn í skúlptúr og innsetningardeild Listaháskólans í Eistlandi. Ágústa útskrifaðist úr LHÍ árið 2018. Eftir útskrift fluttist hún til Berlínar þar sem hún vann að myndlist sinni ásamt því að starfa hjá gallleríinu Verein Berliner Künstler. Í dag er hún búsett í Reykjavík og hefur verið meðlimur listahópsins Myrkraverk frá byrjun árs 2020.
Ágústa er hugfangin af hinu óþekkta og notar það óspart í myndlist sinni sem verður þar að leiðandi dularfull jafnvel drungaleg. Einlægnin er þó aldrei langt á undan. Hún vonast til að með verkum sínum geti áhorfandinn rétt svo stigið út úr hversdagsleikanum og gleymt sér örlítið í eigin vangaveltum.
Vinnustofudvölin er hugsuð sem áframhaldandi vinna að bókverki þar sem Ágústa reynir að vekja upp uppskáldaðar dulverur í formi teikninga, skúlptúra og ljóða. Hún sækir innblástur í náttúruna og þjóðsögur víðsvegar um heiminn. Einnig ætlar Ágústa að nýta sér dvölina í rannsóknir á hljóðum sem spretta upp frá dulrænum sögusögnum bæði í formi drauma og draugalegra upplifana hennar og annarra.