Federico Dedionigi
Federico Dedionigi er gestalistamaður Gilfélagsins í maímánuði. Vinnustofan mun vera opin gestum og gangandi kl. 14 – 17 á þriðjudögum til sunnudaga til 23. maí. Gestavinnustofan er að Kaupvangsstræti 23, gengið inn að vestan við bílastæðin.
Federico er fæddur og uppalinn í úthverfum Buenos Aires í Argentínu. Hann hlaut BA gráðu í myndlist frá Social Museum University (UMSA) og MA í listþerapíu frá National University of the Arts í Argentínu. Hann hefur mikinn áhuga á austurlenskum fræðum, á chi kung, jóga, hugleiðsluaðferðum og kínverskum bardagalistum og vinnur að því að afla sér frekari þekkingar.
Hann starfar sem aðstoðarkennari hjá UMSA og hefur einnig kennt hjá ýmsum skólum í Buenos Aires. Sem listþerapisti hefur hann starfað hjá Interzonal Hospital Dr. J. Esteves og verið nemi hjá Civil Association Antilco.
Árin 2016 og 2017 bjó hann í Frakklandi og ferðaðist um Norður Evrópu. Þar vann hann verk, m.a. teikningaseríu af evrópsku landslagi, Carnet de Voyage og blekteikningar innblásnar af Frönsku Ölpunum þar sem hann dvaldi einn vetur. Síðasta árið hefur hann unnið að akrýlmálverkaseríu í Buenos Aires sem kallast States of Being og mun hann halda þeirri vinnu áfram í Gestavinnustofu Gilfélagsins. Næsta stopp fyrir Federico er Berlín.
Verið velkomin að kíkja í heimsókn til Federico í gestavinnustofunni þri. – sun. kl. 14 – 17 til 23. maí.
Federico mun sýna afrakstur dvalar sinnar í Deiglunni 24. – 26. maí.