Jónas á tímum loftslagsbreytinga – Upplestur
Jónas á tímum loftslagsbreytinga
Deiglan, laugardaginn 25. september kl. 18:00
Hvernig hefði Jónas Hallgrímsson ort kvæðaflokkinn „Annes og eyjar“ nú á tímum loftslagsbreytinga? Þessari spurningu er auðvitað ekki hægt að svara en Anton Helgi Jónsson hefur ort „tilgátukvæði“ sem kallast á við liðna tíma og skoðar áfangastaði þjóðskáldsins í ljósi nýrrar þekkingar.
Í dagskrá sem flutt verður í Listagilinu þann 25. september les Anton Helgi kvæði Jónasar og sín eigin en tengir þau saman með því að rekja tilurð kvæða Jónasar og hvernig þau kveiktu nýjar hugsanir á okkar ógnvænlegu tímum.
Jónas fór í kvæðaflokknum kringum landið og upp á hálendið en Anton Helgi fetar í slóð hans og reynir að endurvekja andblæinn úr kvæðum hans í sínum. Nýju kvæðin eru ort undir sama bragarhætti og Jónas notaði en innihaldið spannar allt frá íhugulli angurværð yfir í gráglettið spaug.
Með flutningi þessarar dagskár í Listagilinu vill Anton Helgi heiðra minningu bróður síns Akureyringsins Finnboga Jónssonar, sem lést 9. september, en þeir voru samfeðra.