Tónleikar kvæðamanna
25. – 28. apríl 2019 verður Landsmót kvæðamanna í fyrsta sinn haldið á Akureyri.
Landsmót kvæðamanna er bæði hátíðleg og skemmtileg samkoma kvæðamanna víðs vegar að af landinu. Að venju verða námskeið tengd hefðinni, s.s. um kveðandi, bragfræði og tvísöngva, og haldnir tónleikar. Kvöldvakan á sínum stað á laugardagskvöldinu og aðalfundur Stemmu – Landssamtaka kvæðamanna á sunnudagsmorgni.
Sérstakir gestir kvæðamannamótsins á Akureyri verða þjóðlagahópurinn Bra folk og þjóðlagasöngkonan og kvæðakonan Sigrid Randers-Pehrson frá Noregi. Norsk og íslensk þjóðlagatónlist er nátengd eins og gefur að skilja, með þjóðarhljóðfærin langspil og langeleik, sönghefðirnar kveðandi og kved (stev).
Sumardaginn fyrsta verða tónleikar í Deiglunni kl. 20:00 með íslenskum og norskum kvæðamönnum. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
Nánari dagskrá Landsmótsins má sjá á heimasíðu Stemmu og Þjóðlistar.