SKJÓL! / SHELTER! – Myndlistasýning
Leitið í skjól í Deiglunni á föstudaginn 23. nóv. kl. 20, sem og laugardag og sunnudag kl. 14 – 17.
Neyðarskýli eiga sér langa sögu á Íslandi og hafa mikilvægt hlutverk enn þann dag í dag. Í Deiglunni verður hægt að skoða neyðaskýlin í gegnum þrívíddarmódel af sögufrægum íslenskum skýlum, í gegnum innsetningu, video og fleiri miðla. Byggðu þitt eigið módel af skýli og taktu með heim.
Nathali Lavoie, gestalistamaður Gilfélagsins, og samstarfsmaður hennar Steve Nicoll rannsaka heimspekileg þemu í nöturlegu landslagi.
„Við höfum ferðast yfir Ísland fimm sinnum síðan 2012 og neyðarskýlin hafa komið við sögu í mörgum gönguferðum. Þessi íslenska hefð að koma upp varanlegum skýlum er mjög ólík þeirri í norður Kanada þar sem eru aðeins sett upp tímabundin skýli. Þessi skýli, bæði forn og ný, vöktu forvitni okkar, okkur fór að þykja vænt um þau og síðar urðu þau að þráhyggju. Það að byggja varanlegt skýli segir margt um hvernig þjóð hugsar um stað sinn innan náttúrunnar og skyldu sína gagnvart seinni kynslóðum sem munu byggja þar.“
Natalie Lavoie er myndlistakona sem búsett er í Fort Simpson, litlu afskekktu samfélagi í nyrsta fylki Kanada. Hún hefur með búsetu sinni á norðurslóðum þróað afar sérstakan stíl, þar sem hún nýtir sér hinn langa vetur. Listræn vinna hennar er byggð á tilraunakenndum samskiptum við staði. Leifar af innsetningum og gjörningum eru skrásettar með ljósmyndum, myndböndum og skrifum. Í fyrri verkum hefur hún notað vatn sem efnivið fyrir tímabundnar innsetningar í frosti.