Viskí, listin og sagan – Kynning á Maltviskífélagi Norðurlands
Viskí – Listin og sagan
Maltviskífélag Norðurlands verður í „Deiglunni“ þann 10. Júlí kl. 20 með kynningu á starfsemi félagsins, ásamt fyrirlestri, spjalli, almennum umræðum og jafnvel örlitlu smakki. – Sláinte!
Eðaldrykkurinn Viskí á sér langa sögu, sem hefst í Mesópótamíu fyrir ca 3500 árum. Á þessari löngu vegferð hefur hver óþekkti snillingurinn á fætur öðrum betrumbætt framleiðsluna. Í dag eru tegundirnar mörg hundruð og framleiddar um allan heim, þótt Skotland, Írland, Japan og Bandaríkin séu stærstu framleiðendurnir.
Við eimingu og geymslu á tunnum verða töfrarnir til. Við þurrkun á byggi er kornið stundum reykt, en svo þarf að velja réttu tunnurnar: bourbontunnur, sherrytunnur, púrtvínstunnur, rommtunnur, rauðvíns- eða bjórtunnur. Þar fær vökvinn að þroskast í rólegheitum og taka í sig það, sem tunnan hefur upp á að bjóða. Þarna kemur karakter framleiðslunnar í ljós. Listin að velja saman atriði, sem gefa á endanum frábært viskí, er margslungin og flókin.
Athugið að það er 20 ára aldurstakmark á viðburðinn.