Skáld – Steini Thorsson
Deiglan 14. nóvember kl. 14 – Sjá viðburð á Facebook
Á þessum viðburði er grímuskylda og fyrirmælum um sóttvarnir og fjölda á samkomum verður fylgt til hinns ýtrasta.Í lokaverkefni sínu frá Myndlistaskólanum á Akureyri fyrir 27 árum var myndlistamaðurinn Aðalsteinn Þórsson að fást við stórar spurningar.
Hann var að rannsaka sjálfsmynd og ímyndir. Í hverju speglum við okkur og kannski ekki síst hvernig passar ímyndin við raunveruleikann. Hvað er og hverju er trúað. Verkin á þessari sýningu tengjast öll þessu þema og spanna allt tímabilið til 2020.„Þannig kviknaði áhugi minn á Jónasi Hallgrímssyni í gegn um koparstunguna af honum sem flest okkar þekkja sem „Skáldið“. Ég var að berjast við míturnar um listamanninn. Ætlaði ég að ganga þessa braut?
Skáldið er listamaður Íslands. Skáldin hafa lengi verið persónugerfingar listamannanna hér í fásinninu. Jónas tikkar í mörg box. Forvígismaður rómantíkurinnar og form byltinga, snillingur en líka svo óendanlega tragískur. Deyr klaufalega eftir fall í stiga, fullur, hafði ekki sinnu á að leita sér hjálpar meðan sýkingin grasserar í sárinu. Meira að segja það var talið rómantískt í mínu ungdæmi.
Ég var á höttunum eftir sannleikanum í myndum, en list er einhver stærsti blekkingaleikur sem hugsast getur, það á ekki sýst við um myndlist. Samt er hún svo sönn. Myndin af skáldinu kom fljótlega í ljós, var gott tæki í þessari rannsókn. Mér varð snemma ljóst að þessi „erkitípa“, myndin af skáldinu var alls ekki af skáldinu, það var jafnvel þannig að flestum sem þekktu Jónas þótti lítið til um líkindin. Það var ein teikning gerð af Jónasi í líkamanum. Hún var gerð að honum önduðum. Helgi Sigurðsson nokkur nam dráttlist á þessum árum við Konunglegu lista akademíuna í Kaupmannahöfn var fenginn til að teikna mynd af líkinu. Hann gerði fleiri teikningar líka í prófíl. Það eru þessar teikningar sem liggja til grundvallar koparstungunni sem við þekkjum og ég vinn með og hef speglað mig í. Í leit minni að sannleikanum varð sagan um beinin ekki síður til að vekja spurningar um ímyndir og sannleika. Beinin af skáldinu sem voru flutt heim. Jónas, (væntanlega) liggur í Þjóðargrafreitnum á Þingvöllum ásamt Einari Ben. Hvaða sannleik sá undarlegi grafreitur segir um Íslenska lýðveldið, læt ég liggja milli hluta. Þetta er opinbera sagan.
Í þessari rannsókn minni áttaði ég mig á að list eins og svo margt annað er spurning um samkomulag. Mynd verður ímynd, ímynd verður sannleikur.