Kóralfjöll – Myndlistarsýning
Laugardaginn 29. febrúar opnar Hekla Björt Helgadóttir sýninguna Kóralfjöll í sölum Mjólkurbúðarinnar og Deiglunnar. Sýningin er tileinkuð heimabæ listamannsins í víðu samhengi og þröngum skilningi. Opnunin hefst klukkan 17:00 og stendur til 20:00 með léttum veitingum. Einnig verður opið sunnudaginn 1. mars og helgina 7. – 8. mars frá klukkan 14:00 – 17:00
Fyrir þúsundum ára var hafið allsráðandi. Það var hreint og ósnortið og í því ólgaði blómlegt líf. Þegar hafið hvarf stóð litríkur hafsbotninn eftir. Jarðvegurinn var saltur og grýttur og upp úr honum sköguðu Kóralfjöll, ekki ósvipuð hverastrýtunum sem hvíla á botni Eyjafjarðar.
Þessi fjöll höfðu fram að þessu hvorki litið sólarlag né staðið af sér snjóstorm. Útsýni þeirra og heimsmyndin öll hafði umturnast þrátt fyrir að ræturnar væru kyrfilega fastar á sama stað og áður. Það gefur að skilja að hugmyndir breytist við svona nokkuð. Hugmyndir eru sprengjur eins og neðansjávareldgos. Þær þenjast undir botninum í dýpinu og splundra svo vatni og urð. Hugmyndir eru einnig sagðar friðlausar þar til vilja þeirra er framfylgt. Fram að því ganga þær berserksgang og herja á hverjum þeim sem fær þær líkt og mara.
Sem dæmi um framúrstefnulega hugmynd Kóralfjalls er eftirfarandi klausa:
“Kannski er ég fallegt útsýni og kannski nýt ég heimsins fegursta útsýnis sjálft, en hvað ef ég er fangi í eigin veröld? Er ég staðfast eða stend ég í stað? Það er alls ekki sami hluturinn!”
Allir eru hjartanlega velkomnir