Skýrsla stjórnar 2018 – 19
Gilfélagið. Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið milli aðalfunda 2018/2019
Félagið
Gilfélagið er nú að ljúka tuttugasta og fimmta starfsári sínu, en það var stofnað 30. nóvember 1991. Það má segja að fyrstu starfsárin hafi farið í að móta hugmyndina um Listagilið og taka þátt í uppbyggingunni með bæjaryfirvöldum, að móta hugmyndir um listasafnið, gallerí og vinnustofur í Gilinu. Á síðustu 10-12 árum hafa orðið kaflaskil þar sem uppbyggingunni í Listagili samkvæmt hugmyndum Gilfélagsins var að megin atriðum lokið, eins og markmiðum félagsins var lýst í fyrstu lögunum. Síðast var það Ketilhúsið sem var tekið í notkun og var þáttur stjórnar félagsins algjörlega þess valdandi að það fékk það mikilvæga hlutverk í Listagilinu sem hefur sannast í gegnum árin. Þetta allt hefði verið ómögulegt ef ekki væri fyrir mikla samstöðu listamanna á Akureyri og nágrenni, en það hefur einmitt verið eitt af mikilvægum markmiðum félagsins. Ekki má heldur gleyma hinum mikla stuðning sem félagið fékk frá 58 listamönnum sem gáfu félaginu 104 listaverk sem stuðning við hugmynd félagsins að berjast fyrir uppbyggingu menningar- og listastarfsemi í Gilinu. Stjórnin fagnar einhuga þeirri miklu endurbyggingu sem Akureyrarbær hefur staðið fyrir á húsnæði Listasafnsins og telur hana mikilvæga viðbót við þá flóru sem fyrir er sem er ávöxtur öflugs grasrótarstarfs til lengri tíma.
Í stjórn félagsins sitja: Guðmundur Ármann Sigurjónsson formaður, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir ritari, Ingibjörg Stefánsdóttir gjaldkeri, og meðstjórnendur Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir og Ivar Freyr Kárason. Varamenn eru Aðalsteinn Þórsson og Sóley Björk Stefánsdóttir. Skoðunarmenn reikninga eru Kristján Helgason og Þóra Karlsdóttir.
Í úthlutunarnefnd gestavinnustofu sitja
Sóley Björk Stefánsdóttir, Ólafur Sveinsson og Arna Guðný Valsdóttir
Stjórnin hefur frá síðasta aðalfundi haldið 20 stjórnarfundi, einn fund með stjórn Akureyrarstofu og tvo opna fundi um framtíðarhugmyndir um notkun á Deiglunni
Starfsemin ársins milli aðalfunda
Starfsemin nú hefur einkum snúist um:
-
Að reka og skipuleggja margvíslega menningarviðburði í Deiglunni
-
Að halda utanum og úthluta listamönnum dvöl í gestavinnustofunni
- Að efla tengsl við erlenda listamenn og vinna að tengslum þeirra við nærsamfélagið, með reglulegum sýningum þeirra í Deiglunni
-
Að skipuleggja og styðja við ýmis verkefni ásamt því stuðla að samstarfi um listviðburði af margvíslegum toga
-
Að vinna að auknu samstarfi við aðila og félög á sviði menninga og lista
Einnig á þessu starfsári, eins og tvö síðustu ár, hefur nokkur tími snúist um að vinna hugmyndinni um opið grafíkverkstæði í Deiglunni fylgi. Stuðningur við hugmyndina er mikill út í samfélaginu, bæði hér í bæ, en einnig víðar að hafa komið stuðningsyfirlýsingar. Markmiðið er, nú sem fyrr, að auka enn frekar nýtingu á Deiglunni og finna henni fjölbreyttara hlutverk. Haldinn var fundur með Akureyrarstofu í Deiglunni í febrúar og var upplifun okkar sem sátu fundinn fyrir Gilfélagið mjög jákvæð.
Gilfélagið hefur tekið þátt í samstarfsverkefnum Listasumars með því að útvega án endurgjalds aðstöðu til listflutnings. Gilfélagið átti einnig frumkvæði að listviðburðum í Deiglunni, til dæmis samsýningu 10 sænskra listamanna, Den besjälade naturen. Fyrirhugað er áframhaldandi samstarf við þann hóp og stefnt á að listamenn frá Akureyri sýni í Svíþjóð. Nefnd á vegum Gilfélagsins vinnur að þeim undirbúningi. Þá var félagið í samstarfi við Art Ak og unnið er að undirbúningi samvinnuverkefnis um gestavinnustofur í Grundarfirði, Akureyri og á Norðurlöndum.
Ótalið er fjölbreytilegt samstarf við einstaka lista- og handverks fólk, ungskáld, leiklistafólk og tónlistarfólk um ýmsa listviðburði og námskeiðshald.
Gestavinnustofan
Samtals sótti 41 listamaður um dvöl í gestavinnustofunni og fór úthlutunarnefndin
yfir umsóknirnar og valdi 11 listamenn. En undanfarin ár hafa allnokkuð fleiri listamenn sótt um en við höfum haft tök á að úthluta.
Stjórnin hefur skipst á að annast gestalistamennina; að taka á móti þeim og aðstoða með ýmislegt praktískt, aðstoð varðandi sýninga þeirra í Deiglunni og kynningar. Töluverð vinna er fólgin í að halda utanum þau mál á heimasíðu félagsins, fréttatilkynningar og aðra upplýsingamiðlun en þeim verkefnum sinnir einn stjórnarmaður, Heiðdís Hólm, sem búsett er í Skotlandi og sinnir þessum verkefnum og öðrum sem stjórnarsetu fylgja í fjarvinnu. Hún situr einnig alla stjórnarfundi á fjarfundi og hefur þetta fyrirkomulag gengið mjög vel.
Gestalistamenn sem hafa dvalið í íbúðinni koma allstaðar frá í heiminum og hafa þeir haldið sýningar á verkum sínum eða hafa haft opið hús og sýnt það sem þeir hafa verið að fást við í listsköpun sinni. Með þessum hætti hafa myndast mikilvæg tengsl þessara við listasamfélagið hér og hafa myndast varanlegur vinskapur og menningarleg tengsl.
Deiglan er í sama húsi og gestavinnustofan þar sem listamenn dvelja í mánuð í senn. Gestalistamennirnir halda oft fyrirlestra um starf sitt í Deiglunni eða í Ketilhúsinu á þriðjudagsfyrirlestrum, einnig sýna listamennirnir afrakstur dvalar sinnar í Deiglunni síðustu helgina hvers mánuðar. Þessar sýningar hafa verið mjög skemmtilegar og vel sóttar. Gestavinnustofur eru alltaf að verða vinsælli kostur fyrir listamenn sem vilja breyta um umhverfi og kynnast nýjum stöðum og má hugsa sem sérhæfðan hluta ferðamannaiðnaðinaðarins. Einn helsti kostur gestavinnustofunnar okkar er að við bjóðum listamönnum að sýningarsal en það er óalgengt. Með fyrirhuguðu grafíkverkstæði mun skapast aukin þjónusta við gestalistamennina sem yrði enn eftirsóknarverðari valkostur og þá einnig boðið heimafólki og ferðamönnum upp á sýningar frá listamönnum á heimsmælikvarða sem vinnur gegn einangrun, sem ávalt er viss hætta á fyrir lítil samfélög.
Deiglan
Í Deiglunni voru ýmsir lista- og menningarviðburðir á tímabilinu og hefur salurinn verið nýttur til opinna viðburða 120 daga á árinu og því getur verið handagangur í öskjunni við undirbúning ólíkra viðburða með stuttu millibili. Töluvert vinnuframlag stjórnarinnar tengist undirbúningi og umsjón með viðburðum enda vilji til að allt grasrótarstarf sem tengist listum, handverki og menningu eigi vísan stað í Listagilinu.
- Opnar vinnustofur
- Ljóðaflutningur ungskálda
- Fluguhnýtingar
- Bókakynningar
- Sýningar gestalistamanna
- Listasmiðja- og grafíkverkstæði fyrir börn
- Fundir félagasamtaka
- Samískur gestalistamaður Gilfélagsins Thomas Colbengtson sýning
- List án landamæra
- Einkasýningar og samsýningar akureyskra listamanna
- Myndlistarnámskeið
- Dansgjörningur
- Sænsk samsýning 10 listamanna
- Leiklistarnámskeið
- Tónlistarviðburðir
- Útgáfuhóf
Mikilvægi Deiglunnar sem fjölnota salar er ótvíræður, en rýmið þarfnast nauðsynlegs viðhalds, endurnýjun lýsingar og laga þarf veggi sem auðvelda að hengja sýningar. Húsvarsla og þrif hafa verið á höndum stjórnarinnar.
Grafíkverkstæðið
Á auka-aðalfundi Gilfélagsins sem var haldinn 3. maí 2016 var kynnt hugmynd um að gera opið grafíkverkstæði í hluta Deiglunnar en að áfram verði sýningaraðstaða í andyrinu.
Gilfélaginu hafa verið færðar tvær grafíkpressur ásamt ýmsum fylgihlutum sem nauðsynlegir eru hverju grafíkverkstæði. Önnur pressan kemur frá Einari Hákonarsyni og hin frá Jóhönnu Bogadóttur en bæði vilja með sínu framlagi styðja við uppbyggingu opins grafíkverkstæðis –hins eina sinnar tegundar á landinu, og kunnum við þeim bestu þakkir. Pressurnar eru djúpþrykkspressa af stærri gerðinni, en með þeim má einnig þrykkja hæðarprent, tré- og dúkristur ásamt planþrykki eins og einþrykk. Í samfélagi listamanna og einkum meðal grafíklistamanna hefur hugmyndin hlotið mikinn stuðning.
Í febrúar kynnti stjórn Gilfélagsins í þriðja sinn hugmyndina fyrir stjórn Akureyrarstofu og hlaut sú kynning góðar undirtektir. Nú bíður stjórnin svara við erindi sem sent var í kjölfarið.
Samstarf:
Samstarf hefur verið milli félagsins og Akureyrarstofu um Listasumar, framlag okkar hefur verið að lána endurgjaldslaust Deigluna fyrir ýmsa list- og menningarviðburði og hefur þetta spannað allar helgar og þriðjudaga í tvo mánuði eða samtals18 daga.
Einnig hefur samstarf verið milli Gilfélagsins, Listasafnsins á Akureyri, listnámsbrautar VMA og Myndlistafélagsins um þriðjudagsfyrirlestra með kynningu á fyrirlestrunum sem og aðkomu gestalistamanna sem sumir halda slíka fyrirlestra í Ketilhúsinu.
Þá hefur verið samstarf við ArtAk um sýningar og er nú, þessa dagana unnið að hugmynd að frekara samstarfi um gestavinnustofudvöl og kynningarmál því varðandi.
Þá má telja margvíslegt samstarf við einstaka listamenn, innlenda og erlenda um sýningar og verkefni. Í apríl höfðum við samstarf við Barnamenningarhátíðina um listverkstæði fyrir börn, sem fékk góðar undirtektir.
Framundan
Frammundan er sýning sem Ingibjörg Stefánsdóttir mun stýra, sem hefur vinnuheitið ‘Þrjár erlendar konur’ en þar sýna textíllistakonur af erlendu bergi brotnu, búsettar á Akureyri, verk sín.
Einnig er fyrirhuguð samsýning 2020 listamanna frá Akureyri og nágrenni í Svíþjóð, sem er liður í að halda tengslum við þá listamenn sem sýndu hjá okkur í september.
Áfram verður stuðlað að því að listamönnum verði auðveldað að koma list sinni á framfæri, eins og hingað til. Vilji er til að auka ennfrekar samstarf við aðila sem vinna að listum og menningu. Áframhaldandi er undirbúningsvinna og skipulag opins grafíkverkstæðis.
Atvinnumennska og áhugamennska
Umræðan um áhugamenn, frístundamálara eða sunnudagsmálara er ófrjó skipting, ætli raunin sé ekki sú að 95-99 % allra starfandi myndlistarmanna vinni ekki launuð störf með sinni vinnu að list sinni. Einnig er umræða um menntaða listamenn og ómenntaða nokkuð á villigötum og er ágætt dæmi um þegar einn ágætur listamaður Þrándur Þórarinsson fékk ekki inngöngu í SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) vegna skorts á BA gráðu í myndlist.
Að sjálfsögðu er mikilvægt að styðja við og vinna að því að listamenn geti gefið sig að sinni list, með því að fá greiðslur fyrir vinnu sína. Að efla þekkingu á listum svo einstaklingar og stofnanir öðlist frekari áhuga á að eignast í listaverk. Að listamaðurinn sé studdur með framlögum eða styrkjum, en einnig að hann geti komið list sinni á framfæri án þess að setja fjárhagslega afkomu sína í voða, þar er mikilvægi sjálfboðavinnu grasrótarinnar ein forsenda og þar er Gilfélagið með Deigluna mikilvægur þáttur.
Hugleiðingar formanns
Eins og þessi skýrsla sýnir er Gilfélagið afar virkt og víðfeðmt menningarfélag sem setur mikinn svip á listalífið á Akureyri.
Í raun er Gilfélagið ein helsta miðstöð grasrótar listamanna þar sem stjórnin og margur félagsmaðurinn vinnur mikið starf í sjálfboðavinnu. Án sjálfboðavinnunnar væri listaflóra í okkar samfélagi ekki svipur hjá sjón. Mikilvægi hennar fyrir viðgang, eðlilegan vöxt listasamfélagsins er eins mikilvægt og súrefnið fyrir manneskjuna. Sýnileiki listanna í listasölum er oft einungis toppurinn af ísjakanum en hin ósýnilega iðja grasrótarinnar er það sem síður er gefin gaumur í skarkala samtímans. Öll iðja grasrótarinnar er algjör forsenda þess að sá sýnileiki, umræddur toppur sé í stöðugri endurnýjun. Þessi vinna sem ávallt er unnin í hugsjón og sjálfboðavinnu. Sjálft sköpunarstarfið sem og félagslíf og umsýsla um ýmis fagleg málefni er ógreidd vinna. Fjöldi listamanna vinnur í raun tvöfalda vinnu, að sinni listsköpun og ýmsum faglegum þáttum greinarinnar og svo vinnan fyrir saltinu í grautinn. Nokkuð hef ég heyrt orðróm í bænum að Deiglan sé ekki góður kostur sem sýningarsalur, þessi orðræða er afleit og grefur undan mikilvægi Deiglunar sem fjölnota sals og vissulega má bæta hér svo betur fari. En þeir erlendu listamenn sem fá afnot af Deiglunni lýsa undantekningalaust þeirri skoðun sinni að það sé fínt og áhugavert rými.