Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri
Þriðjudaginn 24. janúar kl. 17-17.40 heldur ítalska listakonan Barbara Bernardi fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni A Poetic Landscape. Í fyrirlestrinum fjallar hún m.a. um vinnuaðferðir sínar við listsköpun og endurreisn tilfinningarýmis með myndum og hljóði.
Barbara Bernardi nam kvikmyndaleikstjórn í Mílanó og lauk MA gráðu frá Chelsea College of Art and Design í London þar sem vídeólist var hennar megin viðfangsefni. Frá 2008 hefur hún búið og starfað sem listamaður í Berlín. Í gegnum tíðina hefur Bernardi unnið að fjölmörgum vídeóverkefnum, s.s. heimildarmyndinni Ciao Italia í samvinnu við Fausto Caviglia 2010, og hlutu vídeóljóð hennar og ljóðskáldsins Nicolettu Grillo fyrstu verðlaun á Ítölsku bókmenntahátíðinni 2016. Hún dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu Gilfélagsins í Kaupvangsstræti.
Þetta er fyrsti Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Hallgrímur Oddsson, Páll Björnsson, Katinka Theis og Immo Eyser, Rebekka Kuhnis, Aðalsteinn Þórsson, Susan Singer og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Dagskrá vetrarins má sjá hér að neðan:
24. janúar: Barbara Bernardi, vídeólistakona
31. janúar: Hallgrímur Oddsson, blaðamaður
7. febrúar: Páll Björnsson, sagnfræðiprófessor
14. febrúar: Ingi Bekk, ljósa- og myndbandahönnuður
21. febrúar: Katinka Theis og Immo Eyser, myndlistarmenn
28. febrúar: Rebekka Kühnis, myndlistarkona
7. mars: Aðalsteinn Þórsson, myndlistarmaður
14. mars: Susan Singer, myndlistarkona
21. mars: Ingibjörg Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur