Yfirlýsing vegna Kaupvangsstrætis 16
Eftirfarandi er sameiginleg ályktun stjórna Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins sem samþykkt var á fundi fyrir skömmu þar sem til umræðu var óánægja félaganna með breytingar á starfsemi í húsnæði sem hýst hefur Myndlistaskólann á Akureyri til fjölda ára.
Stjórnir Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins lýsa yfir áhyggjum af því að hluti húsnæðisins Kaupvangsstræti 16, sem hýst hefur Myndlistaskólann á Akureyri, verði nú lagður undir gististarfsemi. Það teljum við ekki vera í samræmi við markmið ný samþykkts Aðalskipulags Akureyrar þar sem segir: „Í Grófargili (Listagili) verður lögð áhersla á menningar- og listatengda starfsemi“.
Upphaf listatengdrar starfsemi á svæðinu má rekja til framsýnna ákvarðana í kringum 1990 og á síðustu misserum hefur verið stutt vel við þá stefnu með uppbyggingu og endurbótum á Listasafninu. Það er von okkar að þær framkvæmdir verði til enn frekari eflingar í listalífi bæjarins en hafa þarf í huga að sjálf listsköpunin er undirstaða safna og sýninga. Það er von okkar að listnám á svæðinu þróist og eflist enda mun sköpun, menning og listir skipa vaxandi sess í samfélaginu eftir því sem lengra inn í fjórðu iðnbyltinguna líður. Við viljum því skora á bæjaryfirvöld að fylgja fast eftir fyrrnefndum markmiðum, standa vörð um menningar- og listatengda starfsemi og gæta þannig hagsmuna samfélagsins til framtíðar.
Stjórn Gilfélagsins
Stjórn Myndlistarfélagsins